Harpa Dögg Kjartansdóttir

STAF/ÐSETNING

STAF/ÐSETNING

2020

Midpunkt

 

Listaþonið STAF/ÐSETNING er fyrsta sýningin sem opnar í menningarrýmið Midpunkt eftir Covid-lokun vorsins. Að henni standa listamennirnir Harpa Dögg Kjartansdóttir og Brynjar Helgason, ólíkir listamenn sem eiga í samtali í gegnum verk sín í rýminu. Verk þeirra eru ólík en eiga það sameiginlegt að vera þrívíðir munir sem kallast á við rýmin sem þeir eru í.  Þetta er fyrsta listaþonið sem fer fram í Midpunkt.

Sýningarrými er sjaldan meira en ferhyrningur, hvítmálaður eða gróf steypa og það sem gerir það frábrugðið öðrum slíkum rýmum eru hlutirnir sem dreifðir eru um rýmið og tala saman við hvor annan og alla þá sem ganga inn.

Samtalið og samband listmunanna við hvorn annan er lykilatriði, því þessi grófi ferhyrningur gæti líka verið lager, það var t.d. hlutverk rýmisins sem nú er Midpunkt. Eitt sinn var það geymslurými fyrir ýmsar búðir í Hamraborg og alls kyns hlutir geymdir þar einungis til að vera geymdir þar, og voru síðan sóttir til að gegna einhverju hlutverki á öðrum stað. En í sjálfu sér er ekki mikill munur á lager eða listasafni ef út í það er farið. Fjölmörg nútímalistasöfn eru t.d. oft á tíðum gamlar verksmiðjur, eða á Íslandi gömul frystihús, og þeir salir sem eitt sinn hýstu iðnaðarvarning eða frosin fisk orðnir að rýmum sem geyma listmuni.

Það er í raun ekki eðli hlutanna sjálfra sem hefur breyst, einungis samband okkar við þá og þeirra við hvorn annan. Svo dæmi sé nefnt þá hefði enginn farið að skoða málverk í Hafnarhúsinu þegar það var vörugeymslurými, en málverkið hefði alveg mátt geyma þar. Hins vegar ef þú staflar upp kössum í sölum hafnarhússins í dag byrjar fólk að lesa merkingu í það, jafnvel þó kassarnir innihaldi kannski bara sömu vörur og þeir gerðu þegar Hafnarhúsið var geymsla en ekki safn.

Þetta samband, munir til sýnis, munir með notagildi, munir sem eru geymdir einhvers staðar en eru kannski með meiri merkingu í ákveðnu samhengi, var það sem okkur langaði til að kanna þegar við fengum Brynjar Helgason og Hörpu Dögg Kjartansdóttur til liðs við okkur. Báðir listamenn voru það spennandi að okkur þótti þau bæði geta fyllt tvær einkasýningar í litla rýminu okkar, en hvers vegna að stoppa þar, hvers vegna ekki að nýta alla Hamraborgina og láta verk þeirra tala saman þvers og kruss yfir götuna. Við sáum fyrir okkur dýnamísk verk Hörpu mynda vogarskálar skapa spennuþrungið andrúmsloft yfir nammivigtum í sjoppum nágrennisins, og hversdagslega, en absúrd muni Brynjars lauma sér innan um annan varning í blómabúðum eða bakvið glerið í bakaríum. Áhorfendur myndu svo fá kort yfir götuna og þræða hana úr einni hárgreiðslustofu, inn á tattústofu eða veitingahús í leit að listinni og sjá hana í ólíku samhengi bakvið búðarglerið eða innan um fjöldaframleiddar fernur, dósir og spilakassa.

Það var sýningin sem aldrei varð því Covid19 kom og breytti öllum okkar áætlunum. Enn hafa ekki öll fyrirtæki opnað dyrnar og ekki víst að þau kæri sig um þá annars góðu kynningu, sem fælist í óboðnum gestum með óljós erindi sem myndu hanga yfir öllu í leit að listaverkum og virða þannig öll tveggja metra tilmæli að vettugi.

Þess í stað erum við hér í Miðpunktinum, sem nú hýsir það sem upprunalega átti að vera uppstillt um allt, í litlum lager. Og listaverkin tala við hvort annað þannig að úr verður mikið skvaldur. Sem er ekki minna spennandi heldur þvert á móti eitthvað sem ég óttast að hafi of mikinn sprengikraft.

Ein þverstæða sem hefur verið listamönnunum hugleikin í því ferli að raða upp verkunum og kynna þau fyrir rýminu og hvort öðru er þversögn Zenons um Akilles og Skjaldbökuna: Í kapphlaupi getur besti hlauparinn aldrei tekið fram úr þeim hægasta, vegna þess að sá sem er á eftir þarf fyrst að komast að þeim punkti þar sem sá sem er á undan hóf hlaupið. Sá hægfarari heldur því ávallt forskotinu.

Þannig líður okkur stundum að samband okkar við listina sé. Þó svo hún hlaupi hægt og séum fljótt að ná henni og skilja hana, þá þurfum við ekki annað en að líta aftur undan og þá sjáum við að samhengið er orðið allt annað og merkingin komin á nýjan punkt. Þannig er ekki ólíklegt að mismunandi nálgun þessara tveggja listamanna muni verða til ákveðins margfeldis í merkingu, sem hlaupi sífellt undan þeim og enn lengra frá okkur, og þó svo við náum þeim punkti og færumst nær þá verðum við aldrei alveg þar, aldrei á sjálfum Miðpunktinum.

Þetta listaþon sem nú er haldið í fyrsta sinn í Midpunkt verður tilraun í þessum efnum. Listamennirnir og verk þeirra hafa hlaupið af stað, og merkingarbilið milli okkar byrjar vítt en það mun minnka og minnka eftir hvern hring sem þið gangið um rýmið og virðið fyrir ykkur hvern hlut og samband þeirra við hvorn annan. Það sem aðskilur einn stað frá öðrum er stundum ekki meira en einn stafur, en í bilinu á milli er þar sem merkingin verður til.